Meðal íbúðaverð í Englandi féll í desember um 0,7% samkvæmt frétt í netútgáfu breska blaðsins Guardian á mánudag og er þar vitnað til talna yfirvalda í Bretlandi. Meðalverð hafði þá fallið um 1.220 pund, frá fyrra mánuði og stóð þá í 178.906 pund, eða sem svarar til rúmlega 21 milljónar ísl.kr. Miðað við fréttir af fasteignamarkaði á Íslandi nú um helgina, bendir ýmislegt til að mettun sé að verða á markaði hérlendis sem gæti leitt til svipaðrar þróunar og í Englandi.

Meðal íbúðaverð í Englandi féll um 0,7% á milli mánaðanna nóvember og desember á síðasta ári samanborðið við 2% hækkun íbúðaverðs á sama tíma árið 2003. Verðfallið var mest á einbýlishúsum eða 1,3% á meðan verð á raðhúsum féll um 0,6% og á íbúðum í fjölbýli féll um 0,8%.

Af verði fasteigna í Englandi var meðalverðið langhæst í London, eða að meðaltali 257.195 pund á íbúð (ríflega 30 milljónir ísl. kr.), en íbúðaverð í London hafði þá hækkað um nærri 200% á tíu ára tímabili. Í Brent, í norðvestur London, hafði íbúðaverð þó jafnvel hækkað enn meira eða um 296% á sama tímabili. Næst mest var hækkunin í Westminster, eða um 289% á þessu tímabili. Ekki kemur fram í frétt Guardian hver meðalstærðir íbúða er sem notuð er til viðmiðunar í tölum yfirvalda.

Lægsta íbúðaverðið að meðaltali var hins vegar að finna í desember á norðaustur Englandi, eða að meðaltali 128.991 pund, eða ríflega 15 milljónir ísl. kr.

Spár að rætast

Lækkun fasteignaverðs í Englandi virðist vera í takt við spár manna í haust um að stöðug hækkun íbúðaverð þar í landi fengi ekki staðist til lengdar. Hafa sumir meira að segja óttast að verðfall geti haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir breskt efnahagskerfi. Hvort þessar lækkanir eru tímabundnar eða ekki kemur væntanlega í ljós í úttektum stjórnvalda á næstu mánuðum.

Mikil hækkun á fasteignum næst miðkjarnanum í London síðustu ár hefur endurspeglað vilja fólks til að búa sem næst vinnustað til að reyna þannig að stytta daglegan ferðatíma sinn. Sviðað hefur verið að gerast í Reykjavík og er í takt við skýrslu og spá greiningardeildar KB banka sem gefin var út í september.

Í skýslu KB banka reyndu menn einnig að gera sér grein fyrir þróuninni næstu árin. Í Viðskiptablaðinu í síðustu viku taldi Ásgeir Jónsson, lektor hjá HÍ, að erfitt væri að spá til um hvenær toppi fasteignaverðs verði náð, en líklegt sé að aukið framboð húsnæðis fari að hafa áhrif með vorinu og næsta sumar, enda er mikið byggt um þessar mundir. Samkvæmt fregnum í fjölmiðlum um helgina af fjármögnun banka á nýbyggingum verktaka, virðist mega draga þá ályktun að verið sé að byggja umfram eftirspurn. Þannig er líkleg að toppnum verði náð í haust. Hvort það leiðir til tímabundinnar verðstöðvunar eða lækkunar líkt og í Englandi er svo líklega erfitt að spá fyrir um með nokkru öryggi.