„Þetta er mjög flott íbúð, takmörkuð auðlind enda ekki útlit fyrir að hús sem þessi verði byggð á þessum slóðum á næstu árum,“ segir Einar Páll Kjærnested, fasteignasali hjá Fasteignasölu Mosfellsbæjar. Í gær setti fasteignasalan á söluskrá íbúð á 16. hæð í 18 hæða háhýsi við Vatnsstíg 16-18 í Skuggahverfinu í Reykjavík. Íbúðin er 136 fermetrar að stærð og eru settar á hana 139 milljónir króna. Það merkir að fermetraverðið stendur í rétt rúmlega einni milljón króna sem er með því hæsta sem sést á fasteignamarkaðnum.

Einar segir verðið fyrir íbúðir sem þessar ekki óeðlilegt. Ekki sé langt síðan íbúðir þarna hafi verið seldar á 500-600 þúsund krónur á fermetrann. Þá hafi fasteignaverð í næstu götum verið að hækka og það þrýst verðinu upp í háhýsinu við Vatnsstíginn.

Húsið var byggt árið 2008 og keypti félagið Skuggabyggð húsið af Arion banka. Núverandi eigendur íbúðarinnar sem til sölu er keyptu hana í byggingu fyrir rúmu ári síðan. Einar telur að á sambærilega íbúð sé sett í kringum 90 milljónir króna. Þá telur hann það geta kostað um 25-40 milljónir króna til viðbótar að innrétta íbúð á borð við þá sem hann er með til sölu í háhýsinu við Vatnsstíg.

Efstu tvær hæðirnar í húsinu eru í raun ein íbúð á tveimur hæðum og íbúðin sem hér um ræðir því næstefsta íbúðin í húsinu. Í háhýsinu eru tvær íbúðir á hverri hæð og ætti því ekki að væsa um íbúana.

Tvö svefnherbergi - sérinnfluttar flísar

Íbúðin sem um ræðir skiptist í forstofu, stofu, borðstofu, eldhús, gestabaðherbergi m/sturtu, þvottahús, baðherbergi, tvö svefnherbergi og sjónvarpsherbergi sem hægt er að breyta í svefnherbergi, í kjallara er sér geymsla og bílastæði í bílageymslu. Stofan er björt með útsýni út á sundin og Esjuna en útsýni yfir borgina til suðurs. Í stofunni eru sérinnfluttar Panorama-flísar frá Ítalíu og sérsmíðaður gasarinn úr marmara og steini. Eldhúsinnréttingin er úr sérlakkaðri hnotu og eldhústækin frá Miele. Baðherbergi er flísalagt í hólf og gólf með sturtu og nuddbaðkari, upphengt Roca salerni og Vola blönunartæki.

Lesa má nánar um íbúðina og skoða fleiri myndir á vef Fasteignasölu Mosfellsbæjar .