Staða markaðsskuldabréfa nam 2.118 milljörðum króna í lok janúar sl. og hækkaði um 25,6 milljarða á milli mánaða. Staða markaðsverðbréfa hefur þannig hækkað um tæpa 295 milljarða króna á milli ára skv. hagtölum Seðlabankans.

Mest var hækkunin á stöðu Íbúðabréfa en þau hækkuðu um tæpa 17,2 milljarða króna í janúar. Staða íbúðabréfa hefur lítið sveiflast síðustu mánuði en staða þeirra hefur þó hækkað um rúma 40 milljarða króna á milli ára.

Staða verðtryggðra ríkisbréfa hækkaði um tæpa 2,3 milljarða króna í janúar og hefur nú hækkað um tæplega 71,5 milljarða króna á milli ára. Staða óverðtryggðra ríkisbréf hækkaði um rúmlega 1,7 milljarða króna í janúar og hefur nú hækkað um 21,7 milljarða króna á milli ára.

Þá hækkaði staða erlendra skuldabréfa um 1,7 milljarða króna á milli mánaða í janúar og hefur nú hækkað um tæpa 28,6 milljarða króna á milli ára. Aftur á móti lækkaði staða skráðra bréfa fyrirtækja um 520 milljónir króna í janúar en staða þeirra hefur nú lækkað um rúma 2,6 milljarða króna á milli ára.

Skráð hlutabréf í Kauphöllinni hækkuðu um 12,9 milljarða á milli mánaða í janúar. Staða þeirra hefur nú hækkað um rúma 22,2 milljarða króna á milli ára en í lok janúar nam staða þeirra um 293 milljörðum króna. Þar af nam staða hlutabréfa á Aðallista Kauphallarinnar 266 milljörðum króna, og hafði hækkað um 17 milljarða á milli ára.