*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 1. mars 2019 19:02

Íbúðafjárfesting minni en búist var við

Í milljörðum talið nemur munurinn á spá greiningardeildar Arion banka og rauntölunum um 18 milljörðum króna.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Íbúðafjárfesting jókst um 9,4% á síðasta ársfjórðungi síðasta árs, segir greiningardeild Arion banka í nýrri greiningu, en greiningardeildin hafði reiknað með 23% vexti. Íbúðafjárfesting jókst alls um 18% árið 2018, sem er töluvert minni vöxtur en greiningardeildin hafði áætlað. Í milljörðum talið nemur munurinn á spá greiningardeildarinnar og rauntölunum um 18 milljörðum króna.

Ef gert sé ráð fyrir að ný íbúð kosti að meðaltali um 45 m.kr. þá séu þetta um 400 íbúðir sem muni á milli. Hafa beri í huga að viðhald á eldri eignum telst sem íbúðafjárfesting. Í ljósi þess að tölur Þjóðskrár bendi til þess að tæplega 2.400 íbúðir hafi bæst við á síðasta ári á landinu öllu, sem sé nýtt frá-því-eftir-hrun met, gæti verið að íbúðafjárfesting undir væntingum endurspegli frekar að viðhald hafi setið á hakanum en ekki uppbygging nýrra eigna.

Hvað varði atvinnuvegafjárfestingu þá hafi nokkurn veginn legið fyrir að hún myndi dragast saman á fjórða fjórðungi, enda lengi verið vitað um samdrátt í fjárfestingu stóriðju- og raforkuframleiðslu. Þá hafi áætlanir skipa- og flugfélaga bent til minni fjárfestingar en undanfarin ár.

Það sem komi hins vegar nokkuð á óvart er samdráttur í hefðbundinni atvinnuvegafjárfestingar upp á 3%. Þá sé búið að endurmeta hefðbundna atvinnuvegafjárfestingu fyrir aðra fjórðunga ársins og mælist nú samdráttur á öllum ársfjórðungum, samtals 5,8% samdráttur á árinu 2018. Hér sé að öllum líkindum tilfærsla Hvalfjarðarganganna frá einkaaðilum til hins opinbera að lita tölurnar og því erfitt að draga of sterkar ályktanir að svo stöddu. Áhugvert væri að sjá hver þróun hefðbundinnar atvinnuvegafjárfestingar sé án Hvalfjarðarganganna.