Íbúðalánasjóður á 283 íbúðir í ellefu sveitarfélögum á Suðurlandi. Flestar þeirra eru í sveitarfélaginu Árborg eða 134. Þar af eru aðeins 49 í útleigu en 11 eru óíbúðarhæfar. Hinar íbúðirnar, sem eru 74 talsins, eru ekki í útleigu. Svipuðu máli gegnir um aðrar fasteignir í eigu Íbúðalánasjóðs á Suðurlandi en tæpur helmingur fasteigna sjóðsins er í útleigu á sama tíma og eftirspurn eftir leiguhúsnæði er mikil

Fram kemur í Sunnlenska fréttablaðinu í vikunni, að á Selfossi leigist nánast hver kytra og hafi bæjaryfirvöld og þingmenn rætt við stjórnendur Íbúðalánasjóðs ýmist um að koma fleiri íbúðum í útleigu eða selja þær á markaði.

Haft er eftir Björgvini G. Sigurðssyni, þingmanni Suðurkjördæmis, að hann hafi rætt við stjórnarformann Íbúðalánasjóðs. Hann hafi sagt að allra leiða sé leitað til að leigja fleiri íbúðir í eigu sjóðsins. Björgvin ætlar að taka málið upp á Aþingi í haust, samkvæmt Sunnlenska fréttablaðinu.