Íbúðalánasjóður hefur stytt eindagatímabil á afborgunum til sjóðsins úr 14, að jafnaði, í þrjá daga. Gjalddagar standa eftir sem áður óbreyttir. Fram kemur í tilkynningu frá sjóðnum að þótt hagræði Íbúðalánasjóðs af þessari breytingu geti numið um 80 milljónum á ári kemur einungis örlítið brot af því hagræði frá lánþegum sjálfum. Vaxtatap hvers lánþega sjóðsins vegna breytingarinnar er að meðaltali undir 150 krónum á ári, komi greiðslan af hefðbundnum launareikningi eins og algengast er.

Í tilkynningu Íbúðalánasjóðs segir orðrétt:

„Engar kvaðir eru í lögum, reglugerðum eða á skuldabréfum sjóðsins, um það hversu mörgum dögum eftir gjalddaga eindaginn er. Langt eindagatímabili var upphaflega til þess ætlað að veita mönnum svigrúm til þess að komast í banka til að greiða af húsnæðislánum sínum.  Í dag greiða flestir rafrænt, ýmist með skuldfærslum eða í heimabanka og því lítil rök fyrir löngu eindagatímabili. [...] Með breytingunni er Íbúðalánasjóður kominn með svipaða skilmála og flest þau fyrirtæki sem senda mánaðarlega reikninga til heimila í landinu. Eindagi er þar oft einum til þremur dögum eftir gjalddaga, ef hann er þá ekki sama dag. Stytting þess tímabils sem viðskiptavinir geta greitt gjalddaga án dráttarvaxta, er liður í hagræðingaraðgerðum Íbúðalánasjóðs, en sem kunnugt er hafa stjórnvöld gert kröfu um hagræðingu í rekstri sjóðsins.“