Endurtekning fjölmiðlaumræðu um breytingar á skilmálum skuldabréfa Íbúðalánasjóðs (ÍLS) kallar ekki á nýjar yfirlýsingar af hálfu sjóðsins, að því er segir í tilkynningu frá sjóðnum. Bloomberg-fréttaveitan greindi frá því í gær að gert sé ráð fyrir því að kröfuhöfum ÍLS verði kynntar skilmálabreytingar á útgefnum skuldabréfum sjóðsins í sumar. Sjöfn Ingólfsdóttir, varaformaður stjórnar ÍLS, sagði í samtali við Bloomberg að tillögur þessa efnis hafi verið ræddar en vildi ekkert staðfesta um fyrirhugaðar breytingar. Þá hafði fréttaveitan efir Kára Arnóri Kárasyni, framkvæmdastjóra Stapa lífeyrissjóðs, að hann teldi líklegt að breytingar verði gerðar í sumar en benti á að stjórn ÍLS hafi ekki komið að máli við lífeyrissjóðinn vegna breytinganna.

Í tilkynningu frá ÍLS í dag segir orðrétt:

„Staðreyndir málsins hafa ekki breyst og Íbúðalánasjóður ítrekar eingöngu fyrri yfirlýsingu. Skilmálum útgefinna skuldabréfa verður ekki breytt nema með samkomulagi við eigendur þeirra.“