Ekki er unnið að skilmálabreytingum á Íbúðabréfum og engar ákvarðanir um slíkt hafa verið teknar, segir í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði til Kauphallar. Þar segir að skilmálabreyting þar sem uppgreiðslur yrðu heimilaðar séu óframkvæmanlegar nema í fullu samstarfi við egiendur fjármögnunarbréfa sjóðsins.

Vísað er í ummæli formanns velferðarnefndar Alþingis, Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, á Bloomberg þar sem hún sagði að endursemja þurfi um skilmálanna og þar með að fá eigendur bréfanna til að samþykkja skilmálabreytingu sem heimili sjóðnum uppgreiðslu skulda sinna. Greint var frá ummælum þingmannsins á vb.is fyrr í dag.

Viðskipti með bréf útgefin af Íbúðalánasjóði voru stöðvuð í Kauphöllinni í morgun. Er það í annað sinn sem það er gert frá því á fimmtudag. Þá var pörun bréfa stöðvuð í skamma stund í kjölfar fréttaskýringar Viðskiptablaðsins þar sem rætt var við Sigurð Erlingsson, framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðsins. Í fréttinni sagði að unnið væri að því að breyta skilmálum bréfa þannig að þau yrðu uppgreiðanleg. Íbúðalánasjóður tilkynnti í kjölfarið, líkt og í dag, að ekki sé unnið að slíkum breytingum.