„Það gæti þurft meiri innspýtingu. Það er ekkert víst að þetta dugi,“ segir Gunnar Tryggvason, formaður starfshóps sem velferðarráðherra setti á laggirnar og lagði fram tillögur um framtíðarhlutverk og horfur Íbúðalánasjóðs. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra kynnti skýrsluna á fundi ríkisstjórnarinnar í gær. Formaður starfshópsins segir í samtali við Morgunblaðið í dag að það geti sigið enn frekar á ógæfuhliðina.

„Það er alveg fræðilegur möguleiki ef vextir lækka enn frekar,“ segir hann og bendir á að stærðargráða áhættunnar sé ekki það mikil að ríkisinngrip myndu alltaf bjarga sjóðnum. Þau yrðu hins vegar kostnaðarsöm.

Á meðal tillagna starfshópsins er stofnun sjálfstæðs heildsölubanka í samráði við Samtök fjármálafyrirtækja, Íbúðalánasjóðs og fleiri hagsmunaðila. Gunnar segir í samtali við Morgunblaðið þessa lausn ekki gagna upp nema a.m.k. stærstur hluti bankanna taki þátt i henni.