Íbúðalánasjóður nýtur beinna og óbeinna framlaga frá ríkissjóði í formi ívilnana og undanþága ýmis konar. Í sumum tilvikum er þó erfitt að henda reiður á ívilnanir sjóðsins, að mati höfunda skýrslu KPMG og Analytica um framtíðarskipan húsnæðismála . Skýrsluhöfundar leggja til að Íbúðalánasjóður verði lagður niður í núverandi mynd og að ný stofnun taki við hluta af hlutverki hans.

Ýmsar undanþágur og ívilnanir

Í skýrslunni er m.a. talið upp að sjóðurinn er undanþeginn ríkisábyrgðargjaldi. Ekki er hægt að slá föstu hversu hátt slíkt gjald væri, og því stuðst við það hvað Landsvirkjun greiðir í ábyrgðagjald. Það er 0,48% af heildarskuldum og gæti því Íbúðalánasjóður þurft að greiða 4.176 milljónir króna í fyrra.

Þá eru lán Íbúðalánasjóðs til sveitarfélaga og leigufélaga sem leigja út félagslegt húsnæði með niðurgreiddum vöxtum. Niðurgreiðslan hefur á undanförnum árum numið um 1% stigi, þ.e.a. lánin hafa borið 1% lægri vexti en almenn útlán sjóðsins á hverjum tíma. Ríkissjóður veitir Íbúðalánsjóði framlag til að standa straum af niðurgreiðslunni. Skýrsluhöfundar segja að samkvæmt upplýsingum frá stjórnendum Íbúðalánasjóðs nam sú niðurgreiðsla um 620 milljónum króna í fyrra.

Þá er Íbúðalánasjóður undanþegin greiðslu tekjuskatts og fjármagnstekjuskatts. ÍLS skilaði hagnaði í fimm af síðustu tíu árum. Undanþága frá sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki ÍLS er skv. lögum undanþeginn greiðslu sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki. Eftir breytingar sem gerðar voru á lögununum fyrir síðustu ármót er skatthlutfallið 0,376%. Stofninn eru heildarskuldir samkvæmt skattframtali, umfram 50 milljarða króna. Án undanþágunnar þyrfti ÍLS því að greiða um 2.888 milljónir króna vegna ársins 2014. Þessi skattur er hinsvegar aðeins hugsaður næstu fjögur árin til að mæta kostnaði ríkissjóðs við niðurfærslu vertryggðra húsnæðisskulda almennings, að því er segir í skýrslunni.

Þá segir í skýrslunni að á síðustu fjórum árum hafi ríkissjóður veitt Íbúðalánasjóði eiginfjárframlag sem nemur 46.000 milljónum króna. Auk þess fékk sjóðurinn 4.500 milljóna rekstrarframlag frá ríkissjóði árið 2013 og muni hann fá annað eins á þessu ári. Í heild geri þetta 55.000 milljónir króna.

Þessu til viðbótar greiðir Íbúðalánasjóður aðeins 0,006% af eignum í eftirlitsgjald til Fjármálaeftirlitsins. Þetta gjald nemur hinsvegar 0,256% í tilfelli sparisjóða, lánafyrirtækja, greiðslustofnana og rafeyrisfyrirtækja. Mismunur þessara álagningahlutfalls nam 197 milljónum króna í fyrra.