Ákveðið er að ríkissjóður kaupi til baka óverðtryggð bréf af Íbúðalánasjóði fyrir 32,5 milljarða króna að nafnverði. Viðskiptin, sem munu ganga í gegn á miðvikudag, fela í sér að eiginfjárframleag ríkissjóðs inn í Íbúðalánasjóð breytist úr því að verða óverðtryggt í að vera verðtryggt.

Á móti óverðtryggðu bréfunum afhendir ríkissjóður Íbúðalánasjóði verðtryggð bréf í flokki RIKS 30 0701 fyrir 31,6 milljarða króna.

Í tilkynningu kemur fram að markmiðið sé að draga úr verðtryggingaráhættu Íbúðalánasjóðs en megnið af skuldbindingum hans eru verðtryggðar.

Aðgerðin hefur óveruleg áhrif á skuldastöðu ríkissjóðs, eins og segir í tilkynningunni.