Íbúðalánasjóður hefur sent frá sér fréttatilkynningu í kjölfar umfjöllunar um ákvörðun Búseta á Norðurlandi að kæra sjóðinn til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Telur Búseti að Íbúðalánasjóð skorti lagaheimild til þess að reka leigufélag.

Íbúðalánasjóður segir alrangt að lagaheimild skorti fyrir stofnun og rekstri leigufélagsins Kletts. Lögum um Íbúðalánasjóð hafi verið breytt árið 2012 og sjóðnum heimilað að eiga leigufélag um fullnustueignir sjóðsins. Skortur á reglugerð breyti engu um gildi laganna.

Kærumálið tilhæfulaust

Íbúðalánasjóður telur jafnframt að kærumál til ESA vegna leigufélagsins Kletts sé tilhæfulaust. Félagmönnum Búseta á Norðurlandi sé hins vegar í sjálfvald sett ef þeir telji tíma og fjármunum félagsins vel varið í málarekstur fyrir eftirlitsdómstóli EFTA. Sjóðurinn tjái sig ekki um málarekstur af því tagi, þar sem slíkar kærur myndu beinast að ríkisvaldinu ef til þeirra kæmi.

Einnig áréttar Íbúðalánasjóður að Klettur sé sjálfstætt félag sem hafi sitt starfsfólk, sína stjórn og aðra starfsstöð en Íbúðalánasjóður. Stjórn Kletts sé skipuð af stjórnvöldum og hvorki starfsmenn né forstjóri Íbúðalánasjóðs hafi aðkomu að rekstri leigufélagsins. Þar sé því fullur stjórnunarlegur aðskilnaður. Klettur hafi auk þess engan aðgang að upplýsingum hjá Íbúðalánasjóði.

Að lokum segir Íbúðalánasjóður að honum beri lögum samkvæmt að gæta jafnræðis og standa vörð um þau verðmæti sem sjóðnum sé trúað fyrir. Starfsmenn sjóðsins verði einfaldlega að fylgja þeim lögum. Vilji menn að húsnæðissamvinnufélög njóti sérmeðferðar beri þeim að beina slíkum kröfum til stjórnvalda en ekki til starfsmanna Íbúðalánasjóðs.