Íbúðalánasjóður átti 1.894 íbúðir um síðustu áramót. Nú er útlit fyrir að eignum sjóðsins muni fækka niður í tæplega 1.500 á næstu vikum. Er það vegna þess að í lok október auglýsti sjóðurinn sjö eignasöfn til sölu eða samtals 400 íbúðir og bárust bindandi tilboð í öll söfnin. Ef salan gengur eftir hefur Íbúðalánasjóður selt ríflega 1.100 íbúðir á rétt rúmlega einu ári eða 43% af eignasafninu, sem taldi 2.606 íbúðir í lok ársins 2013.

Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, segir í samtali við Viðskiptablaðið að þetta sé í fyrsta skiptið sem eignir sjóðsins séu seldar í pökkum. Verið sé að fara yfir tilboðin.

„Þetta tekur allt sinn tíma,“ segir Sigurður. „Menn eru að klára sína enda varðandi fjármögnun og í einhverjum tilfellum er verið að draga upp samninga varðandi sölu. Sumt af þessu er mjög langt komið. Við höfðum stefnt að því að klára þetta á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og ég er bjartsýnn á að það takist.“

Ólíkt mat

Fasteignamat eignanna 400 er samanlagt 6,7 milljarðar. Sigurður segir að í ljósi hækkana á fasteignamarkaði geri hann alveg eins ráð fyrir því að markaðsvirðið sé hærra en fasteignamatið en vill þó ekki nefna neina tölu.

„Það er yfirlýst markmið sjóðsins að hámarka söluvirði eignanna. Þetta eru verðmæti og við getum ekki verið að selja eignirnar á einhverju útsöluverði.“

Þeir sérfræðingar sem Viðskiptablaðið hefur rætt við eru ekki sammála því að markaðsvirði eignanna sé hærra en fasteignamatið. Þeir telja líklegt að markaðsvirði eignanna úti á landi sé í kringum 135 þúsund krónur á fermetrann en í höfuðborgarsvæðinu í kringum 250 þúsund.

Langflestar eignirnar, eða 347 íbúðir, eru fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Samtals eru þessar íbúðir tæplega 31.600 fermetrar og ef fermetrinn er reiknaður á 135 þúsund þá er markaðsvirði þeirra tæplega 4,3 milljarðar króna.

Á höfuðborgarsvæðinu eru 53 íbúðir sem samtals eru um 4.700 fermetrar. Ef fermetrinn er reiknaður á 250 þúsund þá er markaðsvirði þeirra um 1,2 milljarður króna.

Samkvæmt þessum útreikningum er heildarmarkaðsvirði eignanna 400 um 5,5 milljarðar króna, sem er töluvert undir fasteignamatinu, sem er tæpir 6,7 milljarðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .