Íbúðalánasjóður ætlar að setja 400 íbúðir úr eignasafni sjóðsins í sérstakt söluferli. Formlegt söluferli hefst þann 17. október nk. og verður þá unnt að nálgast ítarlega upplýsingaskýrslu um söluferlið og eignirnar á heimasíðu Íbúðalánasjóðs. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá sjóðnum.

Sjóðurinn mun bjóða íbúðirnar til sölu í sjö eignasöfnum og geta tilboðsgjafar boðið í eitt eða fleiri söfn. Þær 400 íbúðir sem boðnar verða til sölu í eignasöfnunum eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Suðurlandi, Vesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi. Fasteignamat þeirra er um 6,5 milljarðar króna.

Flestar eignanna sem fara í söluferli eru nú þegar í útleigu og margar þeirra voru byggðar sérstaklega sem leiguíbúðir. Við söluna er lagt til grundvallar að þær verði einungis seldar til aðila sem ætla að reka þær áfram til útleigu. Sjóðurinn gerir þannig þá kröfu til þeirra sem bjóða í eignirnar að þeir geri grein fyrir því hvernig þeir ætli að viðhalda útleigu íbúðanna og að þeir hafi trausta getu til fjármögnunar kaupanna.