Íbúðalánasjóður hefur ákveðið að setja 504 íbúðir úr eignasafni sjóðsins í opið söluferli, en þetta er um þriðjungur af íbúðum í eigu sjóðsins. Íbúðirnar eru um allt land og verða boðnar til sölu í 15 eignasöfnun Verulegur hluti íbúðanna eru í útleigu en hluti þeirra þarfnast lagfæringar. Sala eignanna eru í samræmi við markmið Íbúðalánasjóðs um að selja meirihluta fasteigna sjóðsins á þessu og á næsta ári.

Í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði segir að eignasöfnin séu misjöfn af stærð og gerð. Samsetning eigna miðast við að hagkvæmt geti verið að reka um þær leigufélög og eignir í hverju þeirra eru að jafnaði í sama byggðarlagi.

Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs:

„Að undanförnu hefur gengið vel að selja fasteignir sjóðsins til einstaklinga, leigufélaga og sveitarfélaga. Salan á þessum ríflega 500 fasteignum, sem nú verða seldar í opnu söluferli, er í samræmi við stefnu sjóðsins um að selja meirihluta fasteigna sjóðsins á þessu og næsta ári. Hlutverk Íbúðalánasjóðs er að lána til húsnæðiskaupa og stuðla að stöðugleika á húsnæðismarkaði en ekki að reka fasteignir í lengri tíma. Staða Íbúðalánasjóðs hefur batnað mikið á síðustu misserum en um leið sjáum við að staðan á húsnæðismarkaði er erfið fyrir marga. Íbúðalánasjóður hefur reynt að mæta þessu, m.a. með umfangsmikilli ráðgjöf við fasteignakaupendur enda býr starfsfólk okkar yfir mikilli þekkingu á fasteignalánum.“

Söluferlið mun hefjast mánudaginn 14. desember nk. en þá verður hægt að nálgast uplýsingar um söluferlið og eignirnar.