Stjórn Íbúðalánsjóðs tók á fundi sínum í dag ákvörðun um stofnun leigufélags utan um fasteignir sjóðsins. Til stendur að leigufélagið yfirtaki eignarhald og rekstur á fasteignum Íbúðalánasjóðs um land allt, en meirihluti eignanna er nú þegar í útleigu.

Hið nýstofnaða félag heitir Leigufélagið Bríet ehf. og verður í eigu Íbúðalánsjóðs. Rekstur þess er sjálfstæður. Félagið yfirtekur núgildandi leigusamninga í óbreyttri mynd og því ættu leigjendur viðkomandi eigna ekki að verða fyrir neinni röskun.

Tilgangur Leigufélagsins Bríetar ehf. er langtímaleiga íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni og mun félagið leita samstarfs við sveitarfélög í þeim tilgangi. Formleg yfirtaka félagsins á fasteignum íbúðalánasjóðs og rekstur mun hefjast um leið og vinnu að lokaundirbúningi er lokið.