Stjórn Íbúðalánasjóðs tók í gær ákvörðun um stofnun leigufélags um hluta af fasteignum sjóðsins. Leigufélagið yfirtekur eignarhald og rekstur 524 fasteigna Íbúðalánasjóðs um land allt, frá og með 1. janúar 2013. Meirihluti eignanna er nú þegar í útleigu.

Hið nýstofnaða félag heitir Leigufélagið Klettur ehf. og verður fyrst um sinn í eigu Íbúðalánasjóðs. Í tilkynningu segir að rekstur félagsins sé sjálfstæður og hefur félaginu verið kosin sérstök stjórn. Eignasvið Íbúðalánasjóðs mun annast rekstur fasteigna Leigufélagsins Kletts ehf., þar til félagið tekur að fullu til starfa.

Eftir stofnun félagsins er Íbúðalánasjóður enn með um 1.700 fasteignir í eignasafni sínu. Hátt í 400 af þeim eru í útleigu, en stofnun leigufélagsins mun í engu raska stöðu þeirra sem leigja þær íbúðir.

Í tilkynningunni segir að stofnun leigufélagsins hafi tvö meginmarkmið. Annars vegar að losa um eignarhald Íbúðalánasjóðs á fasteignum og aðskilja rekstur þeirra frá rekstri sjóðsins. Hins vegar að koma til móts við þann vilja stjórnvalda að auka framboð á húsnæði til langtímaleigu.