Vanskil hafa aukist hjá Íbúðalánasjóði og sjóðurinn þarf á 12 milljörðum að halda frá ríkinu til að uppfylla lagaskyldu um lágmarks eigið fé. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Ríkissjóður setti 33 milljarða inn í sjóðinn í desember 2010. Íbúðalánasjóður tapaði 3,1 milljarði króna á fyrstu sex mánuðum þessa árs og eigið fé sjóðsins lækkaði úr rúmum 9,5 milljörðum í árslok 2011 í 6,5 milljarða í lok júní á þessu ári.

„Stór hluti þeirra sem eru í alvarlegum vanskilum eiga það sammerkt að hafa ekki nýtt 110% leiðina. Það eru margir í tómu tjóni. Þá er fólk að koma úr frystingu sem dettur fljótt í vanskil og svo dettur inn hópur úr sértækum úrræðum hjá Umboðsmanni skuldara. Það er almennt ástand á hluta lánasafnsins að það er að versna. Hins vegar má ekki gleyma því að 85 prósent lánasafnsins eru í fullum skilum," segir Sigurður Erlingsson um lánasafn sjóðsins. Samtals má skrifa 600 milljónir króna af rekstrartapinu á fyrri helming ársins á nýgengi vanskila. 600 milljónir króna má einnig skrifa á að lánasafnið eldist, en tapsáhætta eykst með hækkandi aldri lánasafnsins eftir því sem fram kemur í frétt Fréttablaðsins.