*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Innlent 29. ágúst 2019 15:50

Íbúðalánasjóður tapar tveim milljörðum

Viðsnúningur var í rekstri stofnunarinnar milli ára á fyrri hluta árs meðan meðalstarfsmannafjöldinn jókst í 80 manns.

Ritstjórn
Hermann Jónasson er forstjóri Íbúðalánasjóðs.
Aðsend mynd

Rekstrarniðurstaða Íbúðalánasjóðs fyrir fyrri helming ársins var neikvæð um 2.016 milljónir króna, sem er alger viðsnúningur frá sama tíma fyrir ári þegar hún var jákvæð um 1.502,3 milljónir króna.

Hreinar vaxtatekjur sjóðsins frá 1. janúar til 30. júní 2019 voru neikvæðar um 1.456 milljónir króna en voru neikvæðar um 81 milljónir króna á sama tímabili árið áður. Þannig jukust vaxtatekjur sjóðsins um 1,3% á milli ára, í 25,5 milljarða en vaxtagjöldin jukust um 6,7%, úr 25,3 milljörðum í tæplega 27 milljarða króna á milli ára.

Stofnunin segir þetta hafa verið fyrirséð og núþegar brugðist við með frumvarpi um uppskiptingu stofnunarinnar sem lagt verður fyrir Alþingi í haust.

Rekstrargjöld stofnunarinnar jukust um 23,1% milli ára, úr 958,6 milljónum í 1.179,8 milljónir króna, en þar af bættist 124,2 milljóna króna rekstrarkostnaður fjárfestingareigna við sem var núll á fyrra ári. Má væntanlega rekja þann kostnað til leigufélagsins Bríetar sem stofnað var á árinu til að halda utan um eignir sjóðsins á landsbyggðinni.

Laun og launatengd gjöld jukust jafnframt um 21,3%, úr 507 milljónum króna í 615,2 milljónir króna. Meðal starfsmannafjöldi jókst á milli ára úr 78 í 80.

Eiginfjárhlutfallið tæplega 9%

Vanskil útlána hjá Íbúðalánasjóði nema nú 1,8% af heildarlánum og eru óbreytt frá ársbyrjun. Á afskriftareikningi útlána voru 6.949 milljónir króna í lok tímabils og dróst afskriftareikningur saman um 102 milljónir frá byrjun ársins. Um 98,4% af bókfærðu virði lánasafns Íbúðalánasjóðs var á veðbili innan við 90% af fasteignamati eigna við lok tímabilsins.

Eiginfjárhlutfall sjóðsins er nú 8,6% en langtímamarkmið sjóðsins er að hlutfallið sé yfir 5,0%. Eigið fé Íbúðalánasjóðs í lok júní 2019 er 20.068 milljónum króna en var 22.083 milljónir króna í árslok 2018. Heildareignir sjóðsins eru 736 milljarðar kóna og heildarskuldir nema 716 milljörðum króna. Eignir utan lánasafns, að meðtöldu lausafé, jukust á tímabilinu og eru nú 330 milljarðar króna.

Í lok tímabilsins voru útlán sjóðsins 395 milljarðar króna og höfðu útlán á árinu dregist saman um 32 milljarða króna frá árslokum 2018, en ástæðan er sögð miklar uppgreiðslur útlána. Í heildina hafi þær undanfarin ár numið 300 milljörðum króna.

Lánin skilin eftir í gömlu stofnuninni

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er ætlunin með frumvarpinu sem áætlað er að taki gildi frá 1. janúar 2020, að önnur starfsemi sjóðsins en sú sem snýr að umsjón lánasafnsins renni inn í nýja Húsnæðis- og mannvirkjastofnun en til hennar flytjast jafnframt verkefni Mannvirkjastofnunar.

Starfsemin sem snýr að útgáfu húsbréfa sjóðsins, eldri lánastarfsemi og fjárstýringu eigna utan lánasafnsins, það er lausafjár og annarra verðbréfa verði eftir í Íbúðalánasjóði sem muni eftir það fá nafnið ÍLS sjóður.