Íbúðalánasjóður þarf að afskrifa 21,8 milljarða króna vegna aðildar sjóðsins að samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um aðgerðir í þágu yfirveðsettra heimila er afskriftarþörf sjóðsins á fjórða ársfjórðungi 2010. Í heild nema afskriftir sjóðsins á fjórða ársfjórðungi nema 33,4 milljörðum króna. Á fyrstu 9 mánuðum ársins 2010 voru afskrftir 3,2 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íbúðalánasjóði þar sem segir að afskriftarþörf sjóðsins á síðasta ári eykst verulega vegna aðgerðanna.

„Í fjáraukalögum 2010 var samþykkt heimild til 33 milljarða framlags úr ríkissjóði til Íbúðalánasjóðs, meðal annars vegna fyrirhugaðra afskrifta einstaklinga og til styrkingar eiginfjárhlutfalli sjóðsins. Fyrrgreind afskriftaþörf og 33 milljarða eiginfjárframlag ríkissjóðs, sem hvorttveggja færist í ársreikning 2010, munu hafa óveruleg áhrif á eiginfjárhlutfall sjóðsins í árslok 2010,“ segir í tilkynningunni.

Fram kemur að rúmlega sjö hundruð umsóknir hafa borist sjóðnum tengdum niðurfærslu lána. Úrvinnsla umsókna er þegar hafin og hægt verður að ljúka afgreiðslu þeirra umsókna strax og lagaheimild liggur fyrir og 33 milljarða eiginfjárframlag hefur verið greitt til sjóðsins.

„Samkvæmt útreikningum sjóðsins eru 11.400 heimili með lán frá Íbúðalánasjóði þar sem veðskuldir fara yfir 110% af fasteignamati. Gert er ráð fyrir að niðurfærslan nái til 9.000 heimila og nemi allt að 21,8 milljarði króna. Í heild er áætluð afskriftaþörf vegna lána einstaklinga 26,1 milljarður króna á fjórða ársfjórðungi. Þessu til viðbóta eru færðir 7,3 milljarðar króna í varúðarafskriftir sem einkum eru leigufélög. Er þar um að ræða lán rekstraraðila þar sem saman fara langtíma vanskil og vaxandi rekstrarvandi. Í heild jukust 90 daga vanskil lögaðila töluvert meira en vanskil einstaklinga á árinu 2010.“

Í lok árs 2010 var eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs 1,9%. Langtímamarkmið samkvæmt lögum er 5%.