Íbúðalánasjóður var ekki með eftirlit með eigin útlánaáhættu og lagði því ekki mat á þá auknu áhættu sem fylgdi í kjölfar þess að slakað var á lánaskilyrðum sjóðsins. Kemur þetta fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um sjóðinn.

Þar segir að Íbúðalánasjóður hafi almennt verið vel varinn fyrir útlánaáhættu vegna útlána til einstaklinga fram til ársins 2004. Til að mæta aukinni samkeppni frá öðrum lánastofnunum haustið 2004 var slakað á lánaskilyrðum Íbúðalánasjóðs.

„Þegar litið er á þróun útlána Íbúðalánasjóðs má leiða líkur að því að mikill vöxtur útlána að raunvirði og slakari lánaskilyrði hafi leitt til þess að gæði útlánasafns sjóðsins minnkuðu á árunum 2004–2008 og að meiri líkur hafi verið á að þau lán sem voru veitt á því tímabili lentu í vanskilum en önnur.

Þar sem Íbúðalánasjóður var ekki með eftirlit með útlánaáhættu lagði hann ekki mat á þessa auknu áhættu. Engar ráðstafanir voru því gerðar af hálfu sjóðsins eða löggjafans til þess að bregðast við henni og sjóðurinn hélt óbreyttu vaxtaálagi til að mæta útlánatapi,“ segir í skýrslu nefndarinnar.

Hún segir ámælisvert að sjóðurinn hafi ekki greint útlánasafn sitt og að engin vinna hafi verið lögð í að meta líklega þróun á útlánatapi vegna breyttra lánaskilyrða. Með því að þekkja þá áhættu sem fylgdi lánasafninu hefði sjóðurinn getað verðlagt áhættu þess betur og beitt fyrirbyggjandi aðgerðum til að draga úr áhættunni eða með því að leggja hærra álag á útlánsvexti til að mæta væntu útlánatapi.