Íbúðalánasjóður hefur sett sig í samband við sveitarfélög og boðið til viðræðna um að sveitarfélögin kaupi fasteignir af sjóðnum.

Mikil umræða hefur verið undanfarið um skort á almennu og félagslegu húsnæði í sveitarfélögum víða um land en margar af eignum sjóðsins þarfnast töluverða endurbóta sem bíða nýrra eigenda segir í fréttatilkynningu frá sjóðnum.

Ágúst Kr. Björnsson, forstöðumaður fasteigna hjá Íbúðalánasjóði segir í tilkynningu til fjölmiðla að „í mörgum þessara sveitarfélaga er umtalsverð þörf á að auka framboð húsnæðis og ýmis sveitarfélög hafa skoðað möguleikann á stofnun leigufélaga. Ef Íbúðalánasjóður getur með einhverjum hætti komið að þessu verkefni þá væri það í góðu samræmi við markmið sjóðsins um að stuðla að framboði af húsnæði á viðráðanlegu verði.“

Íbúðalánasjóður vonast til þess að í þeim tilvikum þar sem fjárhagur sveitarfélaga leyfir ekki fjárfestingu af þessu tagi þá geti viðræðurnar skilað hugmyndum um aðrar leiðir til að koma nýtingu og eignarhaldi fasteignanna sem fyrst í framtíðarhorf.

Þrátt fyrir að vel hafi gengið að selja eignir Íbúðalánasjóðs undanfarið þá á sjóðurinn ennþá um 1.400 fasteignir víða um land.