*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 8. maí 2018 08:44

Íbúðaskuldir ekki vaxið meira síðan 2009

Eftir lækkun seinustu mánuði hefur íbúðaverð miðsvæðis í Reykjavík farið hækkandi á ný. Um 18% þjóðarinnar leigir.

Ritstjórn
Engihjallinn í Kópavogi
Aðsend mynd

Íbúðaskuldir heimilanna hafa ekki vaxið meira að raunvirði síðan 2009 ef horft er til síðustu 12 mánuða að því er Íbúðalánasjóður greinir frá. Íbúðaverð miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu hækkar aftur eftir að hafa farið lækkandi á seinustu mánuðum síðasta árs.

Á sama tíma hækkaði íbúðaverð um 9% milli tveggja síðustu ársfjórðunga á Akranesi. Um 18% þjóðarinnar eru á leigumarkaði og hlutfallslega jafn margir leigjendur eru á höfuðborgarsvæðinu og utan þess.

Raunverðshækkunin ekki meiri síðan 2009

Í febrúar voru íbúðaskuldir heimilanna 5,6% meiri að raunvirði en í sama mánuði árið áður og hefur 12 mánaða hækkun íbúðaskulda að raunvirði ekki verið meiri frá árinu 2009. Viðsnúningur hefur orðið í þróun íbúðaskulda undanfarin tvö ár en í janúar 2016 höfðu íbúðaskuldir heimila lækkað að raunvirði um 4,5% á einu ári.

Síðan í upphafi árs 2016 hafa lægstu vextir óverðtryggðra íbúðalána lækkað um rúmlega eitt prósentustig og lægstu vextir verðtryggðra íbúðalána hafa lækkað um hálft prósentustig. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs í maí.

Viðsnúningur í verðþróun í miðbænum

Viðsnúningur hefur orðið í þróun íbúðaverðs miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um alls 1,4% á fyrstu þremur mánuðum ársins og ásett verð íbúða hækkaði um alls 1,8% á sama tímabili.

Verð annarra íbúða en nýbygginga lækkaði miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu frá ágúst 2017 þangað til í janúar síðastliðnum og nam lækkunin á þessu tímabili samtals 2 prósentustigum. Síðan í janúar hefur íbúðaverð á þessu svæði þó hækkað aftur.

Íbúðaverð hækkaði um 6% milli ársfjórðunga í 101 Reykjavík.

Í 101 Reykjavík hækkaði verð annarra íbúða en nýbygginga um 6% milli fjórða ársfjórðungs 2017 og fyrsta ársfjórðungs 2018.
101 Reykjavík er það póstnúmer á höfuðborgarsvæðinu þar sem íbúðaverð hækkaði mest milli tveggja síðustu ársfjórðunga þegar nýbyggingar eru ekki taldar með.

Utan höfuðborgarsvæðisins hækkaði íbúðaverð einna mest á Akranesi eða um 9% milli tveggja síðustu ársfjórðunga.

10% leigjenda hyggjast kaupa fasteign á næstu 6 mánuðum

Samkvæmt nýlegri könnun Íbúðalánasjóðs eru 18% þjóðarinnar á leigumarkaði. Hlutfallslega jafn margir eru á leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu og utan þess.

Aðeins 10% leigjenda telja líklegt að þau kaupi sér fasteign á næstu 6 mánuðum, sem er sama hlutfall og meðal þeirra sem búa í foreldrahúsum.