Milli ágúst og septembermánaðar nam hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu 0,6%, sem Hagsjá Landsbankans tekur saman upp úr tölum Þjóðskrár. Þar af nam hækkun fjölbýlis 0,7%, en sérbýlis 0,3%.

Segir bankinn þessa mestu hækkun sem verið hefur á fjölbýlishúsum á fasteignamarkaði frá því í nóvember vera vísbendingu um að kyrrstaðan sem verið hefur á fasteignamarkaði undanfarið sé að fara að taka við sér.

Þannig hafi verðhækkanir síðustu tveggja mánaða verið umfram hækkanir milli mánaða í vor og sumar. Á síðustu tólf mánuðum hefur verð á fjölbýli hækkað um 3,6% en sérbýli hafa hækkað um 3,2%, og vegin árshækkun því um 3,5% á húsnæði.

Sú hækkun var mun meiri á fyrri árum eða á bilinu 4 til 13% í fyrra og 14 til 24% árið 2017, en á þessu ári hefur meðaltalið verið á bilinu 3 til 5%.