*

föstudagur, 17. september 2021
Innlent 18. maí 2021 18:05

Íbúðaverð hækkað um 14% á einu ári

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,7% í apríl og hefur nú hækkað um 13,7% á ársgrunni.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,7% í apríl, samkvæmt nýjum tölum Þjóðskrár. Vísitalan, sem sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs, hefur hækkað um 6,7% síðustu þrjá mánuði og um 13,7% á ársgrunni. 

Þjóðskrá birti einnig í gær leiðréttingu á tölum frá marsmánuði en fasteignaverð samkvæmt uppfærðum tölum hækkaði vísitalan um 3,3% í síðasta mánuði, það mesta á einum mánuði frá árinu 2007. Upphaflega hafði stofnunin gefið út að hækkunin í mars hafi numið 1,6% milli mánaða.

Sjá einnig: Ógöngur á fasteignamarkaði?

Í þjóðhags- og verðbólguspá hagfræðideildar Landsbankans sem var birt í dag er spáð því að íbúðaverð hækki um 10,5% í ár, milli ársmeðaltala, samanborið við 4,8% á síðasta ári. Hún spáir þó að það muni hægjast verulega á hækkunartaktinum næstu ár þar sem viðbúið er að vextir hækki sem muni draga úr kaupkrafti og eftirspurn eftir íbúðum ásamt því að  ferðalög og önnur neysla verður fyrirferðameiri.

Í hagsjá hagfræðideildarinnar sem var kom út í lok apríl var varað við því að auka framboð af íbúðum í miklum mæli. Taldi hún að þörfin á nýjum íbúðum hafi ekki endilega aukist þrátt fyrir að eftirspurnin væri mun meiri. Í þjóðhagsspánni spáir hagfræðideildin því að áfram verður kraftur í íbúðauppbyggingu þrátt fyrir að aðeins hægi á vextinum. Áform stjórnvalda um íbúðauppbyggingu eru sögð hafa spilað þar stóran þátt, auk þess sem hækkun íbúðaverðs muni hvetja til áframhaldandi íbúðauppbyggingar.