Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,7% á milli október og nóvember. Á síðastliðnum þremur mánuðum hefur vísitalan hækkað um 3,3% en um 7,2% á síðustu 6 mánuðum. Árshækkun vísitölunnar nemur nú 17,0%. Íbúðaverð hefur jafnframt hækkað um 24% frá upphafi kórónuveirufaraldursins. Þetta kemur fram í frétt á vef Þjóðskrá.

Undirflokkur vísitölunnar fyrir sérbýli lækkaði um hálft prósent á milli mánaða. Á síðustu tólf mánuðum hefur verð á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkað um tæp 20%, samkvæmt vísitölunni.

Verð á fjölbýli hækkaði um tæpt eitt prósent í nóvembermánuði og hefur nú hækkað um tæp 16% á einu ári.

Vaxtalækkanir Seðlabankans í kjölfar lífskjarasamninganna og heimsfaraldurins hafði jákvæð áhrif á vaxtakjör á fasteignalánum. Fyrstu kaupendum fjölgaði mikið í kjölfarið, bæði á árunum 2020 og 2021. Hins vegar er bankinn nú í miðju vaxtahækkunarferli og endurspeglast það í minni hækkun íbúðaverðs nú í nóvembermánuði samanborið við hækkanir á fyrri mánuðum.