Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,7% í aprílmánuði og hefur nú hækkað um 22,4% á ársgrundvelli. Til samanburðar mældist árshækkun vísitölunnar 22,2% í mars. Vísitalan hefur hækkað um 8,5% á síðustu þremur mánuðum og 13,1% á síðasta hálfa ári. Þjóðskrá birti tölur fyrir aprílmánuð í dag en vísitalan sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs. 

Fjölbýli hækkaði um 2,7% á milli mánaða og hefur nú hækkað um 21,5% undanfarna tólf mánuði. Vísitala íbúðaverðs fyrir sérbýli hækkaði um 2,9% á milli mánaða. Tólf mánaða hækkun sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu mælist nú 25,7%.

Sjá einnig: Sölutími íbúða aldrei styttri

Í nýjustu mánaðarskýrslu HMS kom fram að um þúsund íbúðir hafi verið til sölu á landinu öllu í byrjun apríl, þar af voru um 500 á höfuðborgarsvæðinu. Til samanburðar var fjöldi íbúða til sölu á öllu landinu 2.000 í mars 2021 og nærri 4.000 í maí 2020.