Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,6% milli apríl og maí og hefur nú hækkað um 7,7% á síðastliðnum þremur mánuðum, samkvæmt nýjustu tölum Þjóðskrár . Á sex mánaða tímabili nemur hækkun íbúðaverðs 9,1% og 14,6% á ársgrunni.

Tólf mánaða hækkun sérbýlis mælist nú 18,1% og hefur ekki verið meiri síðan í nóvember 2017, að því er kemur fram í hagsjá Landsbankans. Árshækkun fjölbýlis er nú 13,1% og hefur heldur ekki verið meiri síðan í nóvember 2017.

Samkvæmt nýrri mánaðarskýrslu hagdeildar HMS fyrri júní hefur sérbýli í miðbænum hækkað mest eða um 36% á milli ára og í Grafarholti þar sem það hefur hækkað um 34% en einnig hafur verð hækkað mikið í Hafnarfirði og Álftanesi. Fjölbýli hefur hækkað mest á Seltjarnarnesi og í efri byggðum Kópavogs.

Hlutfall íbúða höfuðborgarsvæðinu sem selst hafa yfir ásettu verði hefur ekki mælst hærra frá upphafi mælinga. Sölutími íbúða var að jafnaði 39 dagar sem sömuleiðis hefur ekki mælst styttri frá því að mælingar hófust. Á landinu öllu eru nú ríflega 1.900 íbúðir auglýstar til sölu en fyrir rúmu ári voru þær rétt tæplega 4.000.