*

laugardagur, 15. ágúst 2020
Innlent 17. júlí 2019 12:21

Íbúðaverð hækkaði í júní

Árshækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu mælist 3,2% í júní samanborið við 5,2% hækkun á sama tíma í fyrra.

Ritstjórn
Íbúðalánasjóður segir jafnvægi ríkja á íbúðamarkaði á höfuðborgarsvæðinu.
Haraldur Guðjónsson

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,2% á milli maí og júní samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands. Greint er frá þessu á vef Íbúðalánasjóðs undir fyrirsögninni íbúðamarkaður í jafnvægi á höfuðborgarsvæðinu.   Árshækkun vísitölu íbúðaverðs mælist nú 3,2% samanborið við 3,9% árshækkun í  maí og 5,2% í júní í fyrra.

Verð fjölbýlis hækkaði um 0,3% milli maí og júní en hins vegar mælist um 0,5% lækkun á milli mánaða á íbúðum í sérbýli. Verð fjölbýlis hefur hækkað um 3,4% frá júní í fyrra samanborið við 3,8% í maí og 3,7% í júní 2018. Tólf mánaða hækkunartaktur sérbýlis mælist nú um 1,8%, samanborið við 4,4% í maí og 9,3% í júnímánuði í fyrra. 

Á vef Íbúðalánasjóðs segir að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hafi á undanförnum tveimur árum fylgt nokkuð stöðugt hinni almennu launaþróun eftir nokkuð snarpar verðhækkanir frá síðri hluta árs 2016 og fram á mitt ár 2017, en á undanförnu ári hafi laun almennt hækkað um 1,2% umfram íbúðaverð.

Á fyrri helmingi ársins voru þinglýstir 3.404 kaupsamningar um íbúðir á höfuð-borgarsvæðinu. Það er um 4% fækkun kaupsamninga frá janúar-júní 2018 þegar 3.546 kaupsamningum var þinglýst. Veltuaukning mælist um 1,2% yfir sama tímabil á verðlagi hvers árs, sem er um 1,9% samdráttur á föstu verðlagi.