*

þriðjudagur, 15. júní 2021
Innlent 22. janúar 2020 11:28

Íbúðaverð hækkaði sögulega lítið í fyrra

Íbúðaverð hækkaði alls um 3,5% að meðaltali milli ára sem er minnsta hækkun sem hefur orðið á höfuðborgarsvæðinu síðan 1997.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Í desember sl. hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,1% milli mánaða. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,1% og verð á sérbýli lækkaði um 0,2%. Þinglýstir kaupsamningar um íbúðarhúsnæði voru nokkuð margir í desember, eða 25% fleiri en í desembermánuði árið áður. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

2019 stöðugasta árið á fasteignamarkaði síðan 1997

„Allt síðastliðið ár voru verðhækkanir mjög hóflegar á fasteignamarkaði. Að jafnaði mældust nafnverðshækkanir milli mánaða um 0,2%. Íbúðaverð hækkaði alls um 3,5% að meðaltali milli ára sem er minnsta hækkun sem hefur orðið á höfuðborgarsvæðinu síðan 1997, ef frá eru talin árin 2009 og 2010 þegar íbúðaverð lækkaði milli ára. Í Þjóðhagsspá okkar, sem kom út í október, spáðum við 3,6% hækkun íbúðaverðs á árinu sem er í samræmi við það sem raungerðist,“ segir m.a. í Hagsjánni. 

Þá segir að raunverð íbúða hafi nánast staðið í stað milli ára. Raunverðið hafi aðeins hækkaði um 0,9% sem sé einnig minnsta hækkun á raunverði milli ára síðan 1997. Raunverð hafi þó lækkað árin 2001 og 2002 og eins 2008-2010.

2019 tíðindalítið framan af

Auk þess segir í Hagsjánni að árið 2019 hafi verið nokkuð tíðindalítið á fasteignamarkaði framan af. Mánaðarleg viðskipti með íbúðarhúsnæði hafi mælst sífellt færri en í samsvarandi mánuði árið áður, allt frá mars og fram í september. Viðskiptin virðist svo hafa tekið verulega við sér í október þegar 60% fleiri íbúðir seldust en í október árið áður.

„Ekki er vitað hvað olli þessari aukningu. Það má vera að óvissunni sem ríkti á vormánuðum hafi verið létt. Sú óvissa snéri meðal annars að því hvaða áhrif gjaldþrot WOW air myndi hafa á hagkerfið, eins voru undirritaðir kjarasamningar þar sem umfangsmiklum aðgerðum var lofað á húsnæðismarkaði. Yfirlýsingar, sem ekki voru komnar til framkvæmda, gætu hafa skapað ákveðna biðstöðu, að minnsta kosti fyrst um sinn,“ segir í Hagsjánni, um mögulegar ástæður þessarar miklu aukningar í október á milli ára.

Loks segir að varasamt geti verið að lesa of mikið í þróun milli einstaka mánaða. Í heild sinni hafi fjöldi viðskipta í fyrra verið nær óbreyttur frá fyrra ári og verðhækkanir á árinu sögulega litlar. Árið í heild hafi því verið nokkuð stöðugt, hvort sem litið er til þróunar í viðskiptum eða verðlagi.