Fasteignaverð hefur þróast með öðrum hætti hér á landi en á evrusvæðinu eftir kreppu. Hér á landi náði verð á íbúðahúsnæði botninum seinna en á evrusvæðinu eða á árinu 2010 og hefur verið að hækka síðan þá. Botninum náði hins vegar á evrusvæðinu árið 2009 og hækkaði það fram á fyrri hluta árs 2011 þegar það tók að lækka á ný. Á öðrum ársfjórðungi einum hækkaði verðið um 4,9% miðað við sama tíma í fyrra. Verð á íbúðahúsnæði á evrusvæðinu lækkaði hins vegar um 2,2%.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í dag. Í Morgunkorni deildarinnar segir að af þeim 13 evruríkjum þar sem tölur um húsnæðisverðsþróun eru tiltækar lækkaði verð í sex á þessum tíma. Verðið lækkaði mest á Spáni eða um 10,6% á milli ára á öðrum ársfjórðungi. Þar næst koma Holland, Ítalía og Slóvakía með 7,5%, 5,9% og 4,6% lækkun. Af þeim löndum innan evrusvæðisins þar sem íbúðaverð hækkaði var hækkunin mest í Eistlandi, eða um 8,1%, og í Lúxemborg um 5,1%.

Greiningin segir þróun húsnæðisverðs hafa fylgt hagsveiflunni hér á landi sem hafi verið nokkuð hagfelldari undanfarið en á evrusvæðinu. Búast megi við að eftir því sem efnahagsbatinn heldur áfram hér á landi á næstunni muni íbúðaverð halda áfram að hækka.