Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 3,9% á fyrsta ársfjórðungi. Annað eins hefur ekki sést síðan á þriðja ársfjórðungi 2007. Á síðustu 12 mánuðum hefur verðið hækkaði um 11,1% og eru sex ár síðan slíkt sást síðast en það var árið 2008. Þróunina má að öðru leyti líkja við stöðuna á árunum 2007 og 2008.

Greining Íslandsbanka segir að þessa hröðu hækkun megi að stórum hluta rekja til aukins kaupmáttar launa, bætts atvinnuástands og fólksfjölgunar. Þá segir greiningin að til viðbótar komi vöxtur í ferðaþjónustu en talsvert af íbúðum sé komin í útleigu til ferðamanna. Þá er talið hugsanlegt að væntingar vegna skuldaaðgerða ríkisstjórnarinnar, sem eiga að hluta að koma til framkvæmda í ár, skýri þróunina. Greining Íslandsbanka segir að fyrirséð sé að aðgerðirnar muni hafa nokkur áhrif á efnahagslega stöðu heimila m.a. í gegnum áhrif þeirra á húsnæðisverð.

Greining Íslandsbanka reiknar með því að verðið haldi áfram að hækka:

„Við reiknum þó með því að hækkunartakturinn verði eitthvað hægari næstu tólf mánuði en hann hefur verið síðustu tólf mánuði. Einnig reiknum við með því að verðbólgan verði rétt við verðbólgumarkmiðið á tímabilinu þannig að raunverðshækkun íbúðarhúsnæðis gæti orðið umtalsverð. Hagur heimilanna mun því halda áfram að vænkast af þessum sökum, þ.e. eignir heimilanna í húsnæði munu halda áfram að aukast bæði að nafnvirði og raunvirði. Þá mun eiginfjárstaða þeirra batna og hlutfall þeirra sem eru í neikvæðri eiginfjárstöðu minnka. Við bætist einnig að fyrsti hluti skuldaaðgerða ríkisstjórnarinnar kemur væntanlega til framkvæmda síðar á árinu, og munu skuldir heimilanna lækka um ríflega 20 ma.kr. vegna þeirra fyrir árslok, ef marka má mat stjórnvalda á umfangi aðgerðanna.“