Verð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,0% á milli janúar og febrúar í ár. Hefur húsnæðisverð á þessu svæði þá hækkað um 1,8% yfir síðustu sex mánuði og 2,0% ef litið er til síðustu tólf mánaða. Samhliða þessu hefur veltan á íbúðamarkaðinum verið að aukast nokkuð. Það sem af er ári hafa verið þinglýstir 672 kaupsamningar með íbúðarhúsnæði samanborið við 479 á sama tímabili í fyrra. Aukningin á milli ára er ríflega 40%.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka í dag þar sem fjallað er um húsnæðismarkaðinn:

Umfjöllun greiningar Íslandsbanka :

„Verðhækkun íbúðarhúsnæðis og aukin umsvif á íbúðamarkaðinum eru í takti við það sem við höfum verið að spá. Kaupmáttur launa hefur verið að aukast og staða heimilanna að vænkast með aðgerðum í lánamálum þeirra. Þá er sparifé að leita inn á markaðinn í því lokaða og afar takmarkaða fjárfestingarumhverfi sem er í krónunni sem nú er afmörkuð af gjaldeyrishöftum. Þá eru væntingar um að framundan sé hagvöxtur og samhliða verðhækkun íbúðarhúsnæðis.

Viðsnúningur íbúðamarkaðarins er merktur af því að heimilin eru afar skuldsett, kaupmáttur lítill og afborganir lána stór hluti útgjalda. Aðgangur að lánsfjármagni til íbúðakaupa er einnig takmarkaðri en var áður en kreppan skall á 2008. Þá eru verðhlutföllin enn há, þ.e. bæði er raunverð íbúðarhúsnæðis rétt við meðaltal síðustu tveggja áratuga og verð íbúðarhúsnæðis sem hlutfall af launum nálægt langtímameðaltali. Þannig er ekki hægt að tala um að verð íbúðahúsnæðis sé lágt sögulega séð þó að það hafi lækkað allnokkuð frá því að verðbólan sprakk á þessum markaði í lok árs 2007.“