Raunvirði íbúðahúsnæðis hefur lækkað um rúm 30% frá því það var hæst í lok árs 2007. Verðið er nú svipað og það var árið 2004 að raunvirði, að því er fram kemur í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Fram kemur í Morgunkorninu að íbúðaverð hækkaði um 0,86% að nafnvirði og 0,3% að raunvirði á milli maí og júní. Miðað við það hafi húsnæðisverð þá hækkað um 3,4% á öðrum ársfjórðungi og raunverðið um 2,7%. Svo mikil hækkun á raunverði íbúðarhúsnæðis á einum ársfjórðungi hefur ekki mælst síðan árið 2007, samkvæmt upplýsingum Greiningar Íslandsbanka.

Þá hefur nafnverð íbúðaverðs hækkað um 20% síðan það var lægst eftir hrun í mars 2010. Raunverð íbúðarhúsnæðis hefur hins vegar hækkað mun minna enda talsverð verðbólga verið á tímabilinu. Það hefur hækkað um 5,4% síðan það var lægst eftir hrun, í apríl 2010, að því er fram kemur í Morgunkorninu.