Verðbólgan mælist enn við markmið Seðalabankans en 12 mánaða verðbólga mælist nú 2,6% eins og í maímánuði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í greiningu frá Íslandsbanka.

„Mæling júnímánaðar er yfir öllum birtum spám en við spáðum 0,3% hækkun milli mánaða. Það helsta sem skilur á milli okkar spá og mælingar Hagstofu er matvöruliðurinn sem hækkaði meira en við væntum, ferðir og flutningar sem hækkuðu minna og húsnæðisliðurinn sem hækkaði á milli mánaða en við gerðum ráð fyrir lækkun í þeim lið," segir í greiningunni.

Segir í greiningunni jafnframt að það veki athygli að íbúðaverð hækkaði um 0,9% í mánuðinum og hafði mest áhrif til hækkunar vísitölunnar. Undanfarið ár hefur íbúðaverð nú hækkað um 6,7% á landinu öllu, þar af 12,6% á landsbyggðinni. Hagstæð lánsfjármögnunarkjör hafa þar að öllum líkindum mikið að segja.

Áhrif veikingar krónunnar virðast komin fram að nær öllu leyti og spáir Greining Íslandsbanka að verðbólga verði áfram við markmið Seðlabankans á þessu ári, en mælist svo að meðaltali 2,1% árið 2021 og 2,4% 2022.