Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 9,9% en svo hraður hefur 12 mánaðar takturinn ekki verið síðan í febrúar 2008. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,9% í desember síðastliðnum samkvæmt vísitölu íbúðarverðs sem Þjóðskrá Íslands birti í gær. Þetta kemur fram í morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

„Haustið 2010 settum við fram þá spá að íbúðaverð myndi hækka um 10% á næstu tveimur árum. Sú hækkun er nú þegar komin fram og enn virðist ekki lát á hækkunum. Það hefur því komið í ljós að viðsnúningurinn á íbúðamarkaði hefur verið mun hraðari en flestir bjuggust við. Ekki er útlit fyrir annað en að íbúðaverð haldi áfram að hækka á næstu misserum að því gefnu að batinn haldi áfram í efnahagsmálum hér á landi," segir í fréttabréfi greiningardeildarinnar.

Hækkunin á síðasta ári kemur í kjölfar þess að íbúðaverð nánast stóð í stað árið 2010, eða hækkaði um 0,2%, og þá lækkaði íbúðaverð um 12% að nafnvirði árið 2009 og um 2,5% árið 2008. „Að teknu tilliti til verðbólgu án húsnæðis hækkaði íbúðaverð um 5% að raunvirði á síðasta ári og hefur 12 mánaða taktur raunverðs íbúða ekki verið svo hraður síðan í byrjun árs 2008," segir ennfremur.