Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,4% í ágústmánuði. Um er að ræða fyrstu lækkun vísitölunnar á milli mánaða frá því í apríl 2020. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum hjá HMS.

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur nú hækkað um 23,0% á ársgrundvelli en til samanburðar mældist árshækkun vísitölunnar 25,5% í júlí.

Lækkun vísitölunnar í ágúst má einkum rekja til sérbýlis en sá liður vísitölunnar lækkaði um 2,4% frá því í júlí. Árshækkun á verði sérbýlis mælist nú 19,8%, samanborið við 25,3% júlí.

Verð á fjölbýli hækkaði lítillega á milli mánaða og hefur nú hækkað um 23,9% á síðastliðnum tólf mánuðum.