*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 10. október 2019 10:03

Íbúðaverð standi í stað til 2021

Íslandsbanki spáir 3% árlegri hækkun íbúðaverðs til 2021. Verðbólga verði 2,8% að meðaltali á sama tíma.

Ritstjórn
Frá árinu 2010 hefur raunverð íbúða hækkað mest í póstnúmeri 103 eða um 10,4% á ári þannig að íbúð þar hefur hækkað 170% til dagsins í dag.
Haraldur Guðjónsson

Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir að raunverð íbúða standi í stað á árinu og hækki svo einungis um 0,2% umfram almennt verðlag á næsta ári og 0,5% árið 2021. Frá þessu greinir í nýrri skýrslu bankans um íbúðamarkaðinn sem birt var í morgun.  

„Hægari kaupmáttaraukning, aukið atvinnuleysi, minni fólksfjölgun og áframhaldandi aukning á framboði nýrra íbúða eru meðal helstu skýringa á hægari hækkun íbúðaverðs. Má segja að þróunin muni endurspegla betra jafnvægi og meiri ró á íbúðamarkaði en hefur verið á síðustu árum,“ segir í enn fremur í skýrslunni. 

Skýrslan er ítarleg enda 85 síður að lengd og snertir á fjölmörgum þáttum tengdum markaðinum öðrum en framboði og eftirspurn, eins og t.d. íþyngjandi kostnað og rakavandamál.  Meðal fróðleiksmola sem finna má í skýrslunni er t.d. að húsnæðisverð á Íslandi hefur hækkað um 77% frá árinu og hefur hvergi í Evrópu hækkað meira en hér. Meðalfermetraverð eigna undir 70 fermetrum hefur aldrei í sögunni verið hærra að raunvirði, en á höfuðborgarsvæðinu er það rúmlega 572 þúsund krónur. Það er 20% hærra en þegar það náði hæst í síðustu uppsveiflu. Í núverandi uppsveiflu hafa slíkar eignir hækkað um 77% á höfuðborgarsvæðinu, langmest allra húsnæðiseigna. Þetta þýðir að smáíbúðaálag er 24% á höfuðborgarsvæðinu og hefur aldrei verið hærra.