78 litlar íbúðir verða byggðar af húsnæðissamvinnufélaginu Búseta á gamla SÍF reitnum við Keilugranda, en til að halda niðri kostnaði verður ekki byggður bílakjallari undir húsinu. Gert er ráð fyrir að íbúðirnar verði tilbúnar til afhendingar árið 2019.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti Búseta lóðina að Keilugranda formlega í dag en þar hyggst Búseti byggja íbúðir auk útisvæða með gróðri og sérafnotareitum.

Hugmyndir eru um að við íbúðarhúsin verði sérstakur lýðheilsureitur sem útfærður verður í samráði við íþróttafélagið KR að því er segir í fréttatilkynningu.

Margir þekkja lóðina sem „gamla SÍF-reitinn“ en á henni stendur nú niðurnídd vörugeymsla sem Samband íslenskra fiskframleiðenda lét reisa á 7. áratug síðustu aldar.

Uppbygging hefst í sumar

Gísli Örn Bjarnhéðinsson, framkvæmdastjóri Búseta, sagði að mikil áhersla yrði lögð á að halda kostnaði niðri og að það yrði á færi venjulegs fólks að kaupa íbúðir á reitnum. Hafist verður handa fljótlega við að rífa húsið og er gert ráð fyrir að uppbygging hefjist á reitnum strax í sumar.

Áhersla er lögð á litlar og einfaldar íbúðir og m.a. verða engin stæði í bílakjallara sem lækkar kostnað við framkvæmdina. Gert er ráð fyrir að íbúðirnar verði tilbúnar til afhendingar árið 2019.

Svæðið í kring um Keilugrandann hefur verið mjög eftirsótt og hefur ástandið á fasteignarmarkaðnum í Vesturbænum hefur verið afar erfitt að undanförnu vegna mikilla verðhækkana og fjölgunar íbúða sem farið hafa í leigu til ferðamanna.

Seldust upp á 2 mánuðum

Búseti er einnig að fara að úthluta íbúðum í þriðja áfanga í Smiðjuholti í nágrenni við Hlemm. Tæplega 80 íbúðir koma í sölu hjá félaginu í haust en þar af eru um 50 stúdíó- og tveggja herbergja íbúðir. Á aðeins tveimur mánuðum í vor hefur Búseti selt tæplega 60 íbúðir á þessum sama reit og ljóst er að margir vilja búa miðsvæðis.

Áherslurnar í uppbyggingunni á Keilugranda eru einfaldari og ódýrari íbúðir með minni sameign án bílakjallara á meðan Smiðjuholtið er íburðarmeira með stærri íbúðum í bland og bílakjallara í sameign. Markmiðið er að höfða til ólíkra hópa en stefna Búseta er að tryggja fjölbreytni á húsnæðismarkaði.

Búseti er samvinnufélag í eigu fólks sem býr í íbúðum félagsins og annarra félagsmanna. Á síðasta ári fjölgaði félagsmönnum Búseta um 20% og er mikil eftirspurn eftir íbúðum félagsins.

Um SÍF húsið:

Byggingin að Keilugranda 1 er 3.800 fm, reist í tveimur áföngum á árunum 1966-1967 og 1983, sem vörugeymsla, fiskverkunarhús og pökkunarstöð fyrir Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda (SÍF).

Í húsinu var SÍF með starfsemi allt fram á miðjan 10. áratug 20. aldar. Þá voru uppi hugmyndir um að láta húsið hýsa matvælagarð til að þróa nýjungar í fullvinnslu matvæla en árið 1997 var húsið selt þvottahúsinu Grýtu sem starfaði þar í nokkur ár.

Á árunum 2004-2007 voru unnar tillögur að deiliskipulagi sem gerðu ráð fyrir mikilli uppbyggingu íbúðarbyggðar á lóðinni en þær hlutu ekki samþykkt. Landsbankinn eignaðist húsið en árið 2012 keypti Reykjavíkurborg húsið af bankanum.

Árið 2013 sendu framkvæmdastjórar Búseta og KR sameiginlegt erindi til borgaryfirvalda um uppbyggingu á reitnum sem fólust í að reisa fjölnota íþróttahús, íbúabyggð og almenningsgarð. KR dró sig skömmu síðar úr þessu vegna hás kostnaðar.

Í janúar 2015 gerðu Reykjavíkurborg og Búseti með sér viljayfirlýsingu þar sem kveðið var á um að Búseti kæmi að uppbyggingu á lóðinni. Síðustu ár hafa listamenn haft vinnustofur í húsinu en gert er ráð fyrir að bygging íbúðahúsa á lóðinni hefjist um mitt ár og að henni verði lokið árið 2019.