Byggingasamvinnufélagið Þorpið-vistfélag vill byggja allt að 120 minni íbúðir í Gufunesi. Stefnt er á að ódýrustu íbúðirnar kosti undir 20 milljónum króna í sölu. Þá segir jafnframt að með því muni meðlimir samvinnufélagsins sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð fjármagnað íbúðakaup með þrjár milljónir í eigið fé. Félagið hefur unnið að þróun verkefnisins undanfarin tvö ár.

Í tilkynningu frá Þorpinu segir að verkefni félagsins sé tvíþætt. „Annars vegar að byggja ódýrar litlar íbúðir, þannig að fólk eigi þess kost að eignast þak yfir höfuðið án þess að ráðstafa nær öllum framtíðartekjum til margra áratuga í húsnæði. Hins vegar að skapa vistvænan grænan valkost þar sem fólk býr saman í sátt við umhverfi sitt í skapandi samfélagi hvert við annað með áherslu á samábyrgð, samvinnu og deililausnir.“

Byggja úr innfluttum timbureiningum

Húsnæðið verður byggt úr fjöldaframleiddum innfluttum timbureiningum sem raðað er saman í fjölbýlishús líkt og dæmi eru um á Norðurlöndunum samkvæmt tilkynningu frá Þorpinu. „Slíkt lækkar byggingarkostnað verulega og styttir jafnframt byggingartíma sem lækkar fjármögnunarkostnað. Þá leggja félagsmenn fram eigið fé til sinna íbúða sjálfir, samkvæmt lögum um byggingarsamvinnufélög, og færir slíkt arðsemi þeirrar fjárfestingar beint til þeirra. Að auki byggir verkefnið á föstu byggingarréttargjaldi Reykjavíkurborgar,“ segir í tilkynningunni.

Forsvarsmenn Þorpsins segja að þvottahús, kaffihús og grillaðstaða verði sameiginleg fyrir íbúa auk þess sem rafknúnir deilibílar fylgi íbúðum svo íbúar þurfa ekki hver og einn að eiga bíl. Sérstakur vatnastrætó muni síðan tengja hverfið beint við miðborg Reykjavíkur. Móttökustöð/deilibúr verði til staðar fyrir aðsendan mat og vörur sem íbúar panta á netinu og geta sótt þegar þeim henti.

Ættliðir geti keypt íbúðir

Þá er stefnt á að húsnæðið byggi á félagslegum fjölbreytileika og mögulegt verði að ættliðir geti keypt íbúðir saman og deilt með sér ábyrgð á barnauppeldi. Þannig er gert ráð fyrir að 80% íbúða verði ráðstafað til fyrstu kaupenda á aldrinum 18-40 ára, 15% íbúða til fólks eldra en 40 ára með fjölskyldutengsl við kaupendur í fyrri hópnum og 5% íbúða til Félagsbústaða. Íbúðirnar verða í stöðluðum stærðum, stúdíóíbúðir, tveggja herbergja og þriggja herbergja.