Velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson, mun funda í dag, mánudag, með stjórnarformanni og forstjóra Íbúðalánasjóðs og segir í samtali við Morgunblaðið að meðal þess sem rætt verði á fundinum sé hvernig koma megi íbúðum í eigu ÍLS aftur í gagnið, þar á meðal með því að setja þær á leigumarkað. "Húsnæðishópur, sem ég skipaði í fyrra, skilaði af sér skýrslu í vor og þar er meginniðurstaðan sú að jafna beri kjör þeirra sem annars vegar eiga sitt íbúðarhúsnæði og hins vegar þeirra sem leigja það. Meðal þess sem lagt hefur verið til er að húsnæðisbætur komi í stað vaxtabóta og húsaleigubóta. Í ár er verið að leggja aukalega sex milljarða króna inn á vaxtabætur og annað eins á að leggja inn á næsta ári. Ég geri því ekki ráð fyrir að farið verði í stórar breytingar á þessu kerfi fyrr en að þeim greiðslum loknum. Húsnæðisbótakerfið gæti því orðið að veruleika árið 2013," segir hann.