*

fimmtudagur, 9. apríl 2020
Innlent 24. október 2017 13:32

Íbúðir verða sífellt stærri

Betri reglugerð og stjórnsýsla myndu skila 80 ókeypis íbúðum að mati byggingarfræðings Íbúðalánasjóðs.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Mögulegt er að leysa húsnæðisvandann enn hraðar en nú er áætlað, en það krefst breytinga á stjórnsýslu og liðkun á reglugerðum segir Elmar Erlendsson byggingarfræðingur á húsnæðissviði Íbúðalánasjóðs. „Tækifærin eru til staðar og meta þarf ávinninginn af breytingum í byggingarmálum hér á landi,“ segir Elmar en hann segir íbúðir á Íslandi vera með þeim stærstu í Evrópu.

Þær séu jafnframt sífellt að verða stærri þrátt fyrir ákall um meiri hagkvæmni, en aðrir þættir sem hann nefnir eru hærri kröfur hér á landi um aðgengi, hljóðeinangrandi hurðir og brunavarnir en gengur og gerist meðal nágrannalanda okkar.

Ísland er í þriðja sæti meðal Evrópuþjóða þegar kemur að meðalstærð íbúða. Hvergi í Evrópu, nema í Kýpur og Lúxemborg, eru íbúðir stærri heldur en hér á landi. Mikil tækifæri eru til að byggja með hagkvæmari hætti og þannig fjölga þeim íbúðum sem hægt er að reisa fyrir takmarkaða fjármuni.

Þetta er á meðal þess sem kom fram í erindi Elmars Erlendssonar, byggingafræðings á húsnæðissviði Íbúðalánasjóðs, á Húsnæðisþingi í síðustu viku að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá sjóðnum. Niðurstaða Elmars er sú að með því að gera tilteknar breytingar á ferlum og kröfum sé hægt að byggja 80 ný leiguheimili til viðbótar við þau sem nú þegar eru ráðgerð, án viðbótarkostnaðar.

Íbúðir verða sífellt stærri

Að undanförnu hefur mikið verið talað um skort á litlum og hagkvæmum íbúðum hér á landi. Því skýtur skökku við að nýjar tveggja herbergja íbúðir eru nú um 9% stærri en þær voru fyrir tveimur áratugum síðan og fjögurra herbergja íbúðir 15% stærri. Þessi þróun er í andstöðu við það sem markaðurinn kallar eftir.

Í erindi sínu kynnti Elmar fyrstu niðurstöður úr rýniverkefni meðal fulltrúa þeirra félaga sem hlotið hafa stofnframlög til uppbyggingar á hagkvæmum leiguíbúðum. Markmiðið er að ná samstöðu um hvernig megi auka enn frekar hagkvæmni uppbyggingar. Þannig mætti fjölga íbúðum, minnka stofnkostnað og lækka leigu.

Tækifæri til að gera betur í stjórnsýslunni

Tækifæri eru til að bæta stjórnsýslu byggingarmála á Íslandi. Hér á landi þurfa byggingaraðilar að skila inn öllum teikningum og fá þær samþykktar áður en framkvæmdir við hús geta hafist. Einnig þarf að skila inn uppáskriftum allra iðnmeistara, þar á meðal málarameistara, áður en má svo mikið sem hrófla við steini. 

Þetta getur oft á tíðum valdið miklum töfum á framkvæmdum og er ólíkt því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Í Noregi á hönnun sér stað í meira mæli samhliða framkvæmdum. Þannig er komið í veg fyrir óþarfa tafir.

Að mati þeirra uppbyggingaraðila sem rætt var við eru deiliskipulög oft óþarflega ítarleg og ósveigjanleg. Breytingar á þeim, til dæmis vegna fjölgunar íbúða, þykja vera afar tímafrekar og kostnaðarsamar. Einnig var kvartað yfir ósamræmi á milli embætta og jafnvel starfsmanna innan sama embættis þegar kemur að byggingarleyfum og úttektum. Staðlaðir ferlar og eyðublöð myndu greiða úr flækjustigi og auka gagnsæi.

Þurfum við öðruvísi hurðir en aðrar þjóðir á Norðurlöndum?

Ýmis ákvæði í íslenskum byggingarreglugerðum eru ólík sambærilegum ákvæðum í nágrannalöndum okkar. Þeir uppbyggingaraðilar sem rætt var við nefndu nokkur dæmi í þessu samhengi.

Hér á landi eru miklar kröfur gerðar um hljóðvist íbúða á móti sameign. Með því að minnka þessar kröfur um einn hljóðflokk, eða til samræmis við það sem tíðkast á öðrum Norðurlöndum, er hægt að minnka kostnað við hurðir um allt að helming.

Kröfur um aðgengismál eru einnig ólíkar þeim sem tíðkast í nágrannalöndum okkar, en það getur valdið auknum stofnkostnaði og rekstrarkostnaði. Skoða mætti, í samstarfi við notendur, hvort tækifæri sé til að liðka á þessum kröfum.

Hægt að minnka kostnað við efni um allt að 25 prósent

Uppbyggingaraðilum fannst almennt vera gerðar meiri kröfur til brunavarna á Íslandi en í löndunum í kringum okkur. Með því að minnka brunamótstöðu byggingarefna til samræmis við það sem þekkist í nágrannalöndum er hægt að minnka kostnað við efni til brunavarna um 10-25 prósent.

Þá má nefna að á Íslandi er gerð sú krafa að slökkvitæki séu yfirfærð einu sinni á ári. Hins vegar eru framleiðendur með allt að 5 ára ábyrgð á slökkvitækjum og því mætti skoða hvort ekki mætti breyta þessu svo tæki yrðu yfirfarin annað eða jafnvel þriðja hvert ár. Slík breyting myndi minnka rekstrarkostnað og þannig stuðla að lægri leigu.

Getum byggt hagkvæmar og hraðar

„Mikil tækifæri eru til að gera betur í stjórnsýslu byggingarmála hér á landi,“ segir Elmar. „Það er álitaefni hvort kröfur í reglugerðum hafi í öllum tilvikum í för með sér samfélagslegan ábata, sérstaklega ef þær eru til þess fallnar að tefja uppbyggingu eða gera hana kostnaðarsamari. 

Hóflegri kröfur, í samræmi við það sem gerist í löndunum í kringum okkur, myndu ekki aðeins minnka efniskostnað heldur hraða uppbyggingu. Þannig myndi fjármagnskostnaður verktaka minnka sem ætti að skila sér í ódýrari íbúðum. Um leið myndi stytting byggingartíma valda því að húsnæðisvandinn myndi leysast hraðar.“