Verðmæti íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu var 447 ma.kr. um síðustu áramót samkvæmt fasteignamati. Á fyrsta ársfjórðungi hækkaði verð íbúðarhúsnæðis á þessu svæði um 13%. Verðmæti íbúðarhúsnæðis á svæðinu hefur því aukist af þeim sökum um a.m.k. 58 ma.kr. Er það varlega áætlað því markaðsverð húsnæðis er jafnan talsvert hærra en fasteignamat. Hækkunin jafngildir 315 þús. kr. á hvern íbúa. Bætist það við drjúga verðmætaaukningu á síðasta ári en þá hækkaði verð íbúða á svæðinu um 23% eins og bent er á í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þar er ennfremur bent á að eðli málsins samkvæmt hagnast þeir á verðhækkunum sem eiga sitt eigið húsnæði en aðrir ekki. Mestur hefur hagnaður þeirra verið sem eiga sérbýli en þær eignir hafa hækka hvað mest í verði. Þá hefur hækkunin verið mismunandi eftir svæðum á höfuðborgarsvæðinu. Því er það ekki þannig í reynd að 315 þús. hafi fallið í skaut hvers íbúa á svæðinu vegna þessara hækkana. Það er meðaltalshækkunin og segir ekki nema hluta af sögunni. Eftir stendur samt veruleg verðmætaaukning sem hefur líklegast þegar haft nokkur áhrif til aukningar á útgjöldum heimilanna, til aukningar á einkaneyslu, lántökum, innflutningi og viðskiptahalla svo eitthvað sé nefnt.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.