Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands úr íbúaskrá þjóðskrár voru landsmenn 319.246 hinn 1. júlí 2009, en þeir voru 319.355 fyrir ári.

Þetta jafngildir því að íbúum á landinu hafi fækkað um 109 á einu ári eða um 0,03%. Langt er síðan íbúum Íslands fækkaði milli ára. Það átti sér síðast stað árið 1889.

Fækkun í Reykjavík nemur 879

Milli 1. júlí 2008 og 1. júlí 2009 fjölgaði íbúum í öllum landshlutum að frátöldu Austurlandi (-8,2%) og Vesturlandi (-0,6%). Hlutfallsleg fjölgun á Vestfjörðum nam 2,3% og fjölgaði íbúum um 166 milli ára.

Á höfuðborgarsvæðinu búa nú 63,1% þjóðarinnar og fjölgaði íbúum þar milli ára um 629 eða 0,3%. Mestu munar um fjölgun í Hafnarfirði (675) og Kópavogi (600) en athygli vekur að fækkun átti sér stað í Reykjavík (-879) milli ára.

Umtalsverð fjölgun átti sér stað á Suðurlandi en þar fjölgaði íbúum um 221 milli ára eða um 0,9%. Á Norðurlandi nam fjölgunin 0,2%.