*

laugardagur, 24. október 2020
Innlent 30. júlí 2020 09:53

Eyjamenn verða af 380 milljónum

Vestmannaeyjar verða af um 380 milljónum króna þar sem Þjóðhátíð hefur verið blásið af, um er að ræða eina helstu tekjulind ÍBV.

Ritstjórn
Þjóðhátíð hefur tvisvar áður verið lögð niður, á stríðsárunum 1914 og 1915.
Aðsend mynd

Vestmannaeyjar munu verða af um 380 milljónum króna sökum þess að Þjóðhátíð hefur verið blásin af. Um er að ræða eina helstu tekjulind ÍBV en Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri ÍBV, hefur sagt að um 60-70% af tekjum íþróttafélagsins komi frá hátíðinni. Frá þessu er greint á vef Íslandsbanka.

Heildarkortavelta í Vestmannaeyjum yfir þjóðhátíðarvikuna nam að meðaltali um 79 milljónum króna árin 2014 – 2018 sem er ríflega þrefalt meira en aðrar helgar. Þar hefur miðasala hátíðarinnar að öllu leyti verið undanskilin en áætlaðar tekjur af henni eru í grennd við 300 milljónir. 

Stærstan skerf kortaveltunnar hirða veitingastaðir, tjaldsvæði og dagvöruverslanir (matvörubúðir og áfengisverslanir) en hlutdeild þeirra nemur um 68%. Meðalkortavelta frá árunum 2014-2018 yfir Goslokahátíðina nam um 33 milljónum, um 19 milljónum þegar á Orkumótinu stendur en 18 milljónum þegar á Pæjumótinu stendur. 

Þjóðhátíð var fyrst haldin árið 1874 en hefur verið árlega síðan 1901, að undanskildum styrjaldarárunum 1914 og 1915.

Stikkorð: kortavelta Þjóðhátíð ÍBV