Milljarðamæringurinn og vogunarsjóðsstjórinn Carl Icahn hefur afþakkað boð Donald Trump um að vera fjármálaráðherra í ríkisstjórn hins síðarnefnda ef hann verður forseti Bandaríkjanna.

Trump tilkynnti í síðustu viku að hann byði sig fram í forvali Repúblíkanaflokksins til forsetakosninganna 2016 og sagði hann í samtali við „Morning Joe“ á MSNBC að hann vildi endilega fá Icahn með sér um borð.

Það tók Icahn þó innan við 24 klukkustundir að afþakka boð Trump í bloggfærslu og lýsti hann í leiðinni undrun sinni á að fasteignajöfurinn hefði boðið sig fram sem forseta.

„Það kom mér mjög á óvart að heyra að Donald væri að bjóða sig fram sem forseta og jafnvel enn meira á óvart að hann segðist vilja gera mig að fjármálaráðherra,“ skrifaði Icahn.

„Mér er mikill heiður sýndur, en ég vakna bara ekki nógu snemma á morgnanna til að samþykkja þetta boð.“