Gengi hlutabréfa lyfjaframleiðslufyrirtækisins Allergan hefur farið hækkandi í viðskiptum dagsins eftir að Carl Icahn segist hafa keypt bitastæðan hlut í fyrirtækinu. Gengið hækkaði um 3% í formarkaðsviðskiptum en hækkaði um 1,5% snemma dags. Nú er hækkunin ríflega 1,2%.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrir skömmu síðan seldi Icahn hluti sína í Apple á síðasta ári. Mögulegt er að fjármagnið sem losaðist við sölu hans í Apple-bréfunum sé það sem hann notaði til að kaupa hlut í Allergan sem hefur heildarmarkaðsvirði upp á 93 milljarða dala eða 11 þúsund milljarða króna.

Allergan hefur þá einnig áður komist í fréttir upp á síðkastið en samruni fyrirtækisins við annað lyfjafyrirtæki, Pfizer, var í kortunum - áður en ekkert varð úr honum. Síðan þá hefur gengi bréfa Allergan lækkað um meira en 24% á árinu.