Kínverska flugvélaleigumiðlunin ICBC Leasing hefur nú staðfest pöntun á 45 C919 vélum frá kínverska flugvélaframleiðandanum Comac. Þá hefur ICBC jafnframt skuldbundið sig til að verða fyrsti aðilinn sem tekur C919 vélina í notkun.

Frá þessu er greint á vef Flightglobal. C919 vélin er nú í þróun og framleiðslu en henni er ætlað að keppa við Airbus A320 og Boeing 737 enda er um sambærilega vél að ræða í útliti og stærð.

Ekkert er gefið upp um andvirði kaupanna. ICBC mun þó taka þátt í þróun og hönnun vélarinnar.

Með pöntun ICBC hafa nú 145 vélar verið pantaðar en vélin var fyrst kynnt á flugsýningunni í Zhuhai í Kína í nóvember sl. Fyrsta reynsluflug vélarinnar er áætlað árið 2014 en Comac gerir ráð fyrir því að afhenda fyrsta eintakið árið 2016.

C919 er fyrsta alvöru, ef svo má að orði komast, farþegaflugvélin sem er bæði framleidd og hönnuð af Kínverjum eftir að framleiðslu Shanghai Y-10 vélarinnar var hætt á níunda áratug síðustu aldar.