Icebank hefur vaxið afar hratt á undanförnum misserum og jafnframt skilað afar góðri ávöxtun eigin fjár. Ýmsar blikur eru þó á lofti í fjármálaheiminum og í samtali við Viðskiptablaðið segir Agnar Hansson bankastjóri Icebank að stefnan hafi verið tekin á að afla Icebank lánshæfismats til þess að breikka fjármögnunarmöguleika bankans og til greina komi að bankinn komi sér upp innlánum.

Agnar varð um áramótin bankastjóri Icebank, áður Sparisjóðabanka Íslands, í kjölfar þess að samkomulag náðist um starfslok Finns Sveinbjörnssonar. Agnar var áður framkvæmdastjóri fjárstýringar Icebank en hefur auk þess langa reynslu af störfum innan fjármálageirans. Hann er með meistarapróf í raunvísindum og hagfræði frá háskólanum í Árósum.

Agnar segir að ekki standi til að gera grundvallarbreytingar á starfsemi bankans enda byggi hann starfsemi sína á sterku viðskiptalíkani. Icebank er fyrst og fremst heildsölubanki og er ekki með nein innlán og Agnar dregur ekki dul á það að frekari vöxtur bankans velti á því hvernig aðgengi og kjör á fjármagni verða. Icebank og Sparisjóðabankinn áður hefur til fjölda ára einkum sótt fé til þýskra fylkjabanka eða „Landesbanken“.

Hræringar hafa verið hjá þessum bönkum og greinilegt er að Agnar vill breikka fjármögnunarmöguleika Icebank með því að fá lánshæfismat og eins er ekki annað á honum að heyra en að bankinn geti hugsanlega orðið þátttakandi í samþjöppun á íslenskum fjármálamarkaði sem lengi hefur verið talað um.

Viðskiptablaðið birtir í dag ítarlegt viðtal við Agnar Hansson. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér á vb.is. Þeir sem ekki hafa slíkan aðgang geta sótt um hann hér .