Icebank, áður Sparisjóðabanki Íslands, hefur tekið þátt í sambankaláni að virði 25 milljónir Bandaríkjadala fyrir rússneska bankann Svyaz-Bank. Lánið samsvarar 1,7 milljörðum íslenskra króna.

Svyaz-Bank greindi frá láninu á mánudaginn og eru vaxtakjörin 325 punktar yfir bandaríska LIBOR-vexti.

Lánið var leitt af rússneska bankanum VTB og austurríska bankanum UniCredit, sem er hluti af Bank Austria-samstæðunni.

Nafni Sparisjóðabankans var nýlega breytt í Icebank og mun bankinn leggja aukna áherslu á fjárfestingabankastarfsemi. Áætlað er að skrá bankann í Kauphöll Íslands árið 2008.